Eineltisstefna

Stefna Brauð & Co um forvarnir gegn einelti, áreitni og vanlíðan á vinnustað


Yfirlýsing og skilgreiningar

Brauð & Co leggur áherslu á að allt starfsfólk fyrirtækisins sýni samstarfsfólki sýnu ávallt kurteisi og virðungu í samskiptum á vinnustaðnum og utan hans. Einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og/eða ofbeldi er ekki liðið.


Einelti: Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir. 


Kynbundin áreitni: Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.


Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg. 


Ofbeldi: Hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíka hegðun, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis. 


Meginmarkmið

Markmið sefnunnar er að koma í veg fyrir einelti, áreitni, erfið samskipti eða ofbeldi á vinnustað og tryggja að úrræði séu til staðar telji starfsmaður sig hafa orðið fyrir slíkri hegðun. Stefna þessi og viðbragðsáætlun er sett í samræmi við 38. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.


Réttindi og skyldur

Telji starfsmaður sig hafa orðið fyrir einelti, kynbundinni eða kynferðislegri áreitni eða ofbeldi eða telur sig hafa orðið vitni að slíkri hegðun er hann hvattur til þess að bregðast við með eftirfarandi hætti:

  • Með tilkynningu til yfirmanns, gæðastjóra eða til trúnaðarmanns.
  • Ef starfsmaður óskar eftir trúnaði um tilkynningu þarf sá sem leitað er til að taka afstöðu til þess hvort heimilt er að verða við því. Ef unnt er að verða við því er upplýsinga aflað hjá starfsmanninum og honum veittur stuðningur með trúnaðarsamtali eða ráðgjöf.


Öll mál sem eru tilkynnt eru tekin alvarlega hvort sem um einelti, áreitni, slæm samskipti eða ofbeldi er að ræða. Brugðist er við öllum ábendingum eins fljótt og kostur er. Aðgerðaráætlun er gerð fyrir hvert mál sem felur í sér ákvörðun um afleiðingar fyrir geranda sem og forvarnaraðgerðir sem draga eiga úr hættu á að slíkt endurtaki sig. Allar upplýsingar um málið eru meðhöndlaðar sem trúnaðarmál. Þörf þolanda fyrir stuðning er metin og stuðningur veittur eftir því sem þörf krefur.


Nýju starfsfólki skal kynnt stefna og viðbragðsáætlun fyrirtækisins til að koma í veg fyrir einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi strax við upphaf starfs.


Stefna þessi tekur gildi frá og með febrúar 2022 og var samþykkt af framkvæmdastjórn.

Share by: