Vorið 2016 opnuðum við fyrsta bakaríið okkar í graffaða húsinu við Frakkastíg 16 og viðtökurnar voru alveg svakalegar.
Fyrstu mánuðina þurftum við að loka allt of snemma, dag eftir dag, því allt var rifið úr hillunum. En við viljum auðvitað að allir fái brauðið sitt og opnuðum heil sjö bakarí í viðbót, svo það er algjör óþarfi að örvænta. Það er nóg til. Rjúkandi ferskt súrdeigsbrauð, croissant í sérflokki, sjúklega góðir snúðar og alls konar gotterí.
Við ákváðum strax að bjóða aðeins upp á nýbakað súrdeigsbrauð og annað bakkelsi úr sérvöldu lífrænt ræktuðu hágæðahráefni.
Þið getið alltaf kíkt á okkur bakarana að hnoða og hræra og jafnvel spurt okkur um aðferðirnar og hráefnið því baksturinn fer fram fyrir opnum dyrum.
En þetta er handverksbakarí og það er alltaf möguleiki á mistökum, en við skömmumst okkar ekkert fyrir þau heldur lærum af þeim. Við hötum ekkert að gera tilraunir og prófa okkur áfram til að fullkomna úrvalið og finna spennandi nýjungar. Við leggjum meira upp úr gæðum en framsetningu og elskum einfaldleikann en þolum ekki sýndarmennsku.
Við erum heiðarlegt bakarí og þess vegna höfum við náð svona langt.
Við viljum ekki nota neitt drasl í baksturinn og tökum ekki annað í mál en að nota fyrsta flokks lífrænt hráefni, því það skilar sér í miklu betra bragði. Við notum fjórar tegundir af lífrænt ræktuðu mjöli, Öland og Einkorn sem við flytjum inn frá Danmörku, og Manitoba og 00 sem við flytjum inn frá Ítalíu.
Allt annað korn, fræ eða sykur sem við notum er lífrænt ræktað og mest flutt inn frá Danmörku eða Þýskalandi. Svo erum við rosalega stolt af því að nota eingöngu íslenskt smjör og sjávarsalt því það einhvern veginn gerir allt betra.